Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum -...

23
MÓÐIR SNILLINGSINS Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum

Transcript of Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum -...

MÓÐIR SNILLINGSINS

Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum

„Ég öfunda hana móður hans", sagði ég áköf og hrifin. „Hvað segirðu, öfundarðu hana móður hans sálugu?" „Er hún dáin?" „Hún Gustuka-Geirlaug auminginn, já ég held, að hún sé dáinn vesalingur. Fyrir mörgum árum". „Var hún einhver aumingi?" „Það var hún óneitanlega upp á síðkastið". „Hvar var hún?" „Hún var norður í landi". „Þekktir þú hana?" „Já, ég þekkti hana vel, flestum betur". „Hvernig var hún aumingi?" „Hún lenti í villu og lá úti uppi á fjöllum og fannst svona, þegar upp birti, geggjuð auminginn þessi". „Var hún almennileg áður?" „Já, vit hafði hún meira en margur annar, en hún var dálítið sérstök í sér". Ég þagnaði, því að sönghvíldin var á enda, og þarna stóð hann aftur, ungur og fagur, með snillingsglampann á björtu augunum og sigurgleðina í svipnum eftir dynjandi lófaklappið og aðdáunaróp áheyrendanna, sem aldrei ætlaði að linna. Og svo smaug á ný hjartnæma, skæra röddin hans í gegnum hverja sál, sem ekki var með öllu smugulaus og harðlæst. Fylltu ekki bátinn minn, umstangsalda, ýtt honum gegnum löðrið kalda. Minning þar gömul vöggu vitjar, veikliðað farið straumur ber. Fagnaðarlandið sitt hún sér. Gott er þar ung hjá ástvin sitja, elskunnar dýrgrip með sér flytja, heim þegar síðast haldið er. Ég sat agndofa hugfangin hjá gömlu „frænku" og var að hugsa um, hvað yndislegt mundi vera að eiga svona son. - - - Nú það var satt. Hún var að segja mér, hún frænka, að móðir hans hefði átt bágt - - - mér fannst nærri óhugsandi, að móðir svona manns gæti nokkurn tíma átt bágt, en ég vissi nú ekki glöggt um það, ég, sem ekkert barnið átti. - - - Þegar söngsamkomunni var lokið, og fólkið þyrptist burt úr sætum sínum, sumir út, og nokkrir, sem þekktu Reyni — svo hét söngvarinn — gengu inn til hans upp á pallinn, til að taka í höndina á honum og láta honum í ljós aðdáun sína og velþóknun, þá segi ég við frænku, að nú færi ég heim með henni, Hún verði að segja mér af móður mannsins þessa, og hverra manna að hann sé, því að ég vissi engin deili á honum, önnur en þau, að nú var hann kominn frá útlöndum, hafði farið suður um lönd og unnið sér frægðarorð sem fágætur söngsnillingur, sem ætti sér glæsilegar framtíðarvonir. Og nú tóku stórmenni Reykjavíkur við

honum eins og hvítum fugli, og kepptust hver við annan um að komast í sem nánust tengsli við hann, og báru hann á höndum sér með matarveislum og skálaræðum. Ég var gestkomandi í borginni, átti heima uppi í sveit og fannst mikið til um allt þetta. Á heimleiðinni bað ég frænku — hún var öldruð prestsekkja, nýlega flutt til Reykjavíkur — um að segja mér, það sem hún vissi um ætt og uppruna þessa manns. „Það er nú ekki margt um það að segja, hann var umkomulaus, og ættsmá var móðir hans sögð að minnsta kosti og ónafnkennd". „Hvað hét hún?" „Geirlaug. Var kölluð Gustuka-Geirlaug". „Já, það var satt. Þú sagðir mér það áðan. Var hún alveg örvita?" „Já, um tíma var hún það, svo varð hún hæg og þögul, fór manna á milli og talaði aldrei orð að heita mátti. Það voru henni allir góðir og buguðu góðu að henni, gáfu henni bæði að borða og spjör á sig. Hún bað aldrei neins, en stóð þegjandi og beið þess, að bugað væri að henni". „Gat hún ekkert unnið?" „Nú ekki held ég nú það, hún var líkamlega fötluð líka". „Hvernig þá?" „Hún missti þumalfingurinn af hægri hendinni og varð þá ekki handþæg höndin". „Hvernig vildi það til?" „Hún var þá í vist með drenginn sinn fjögurra ára. Hún átti að gæta ánna um fráfærurnar uppi á fjalli síðari hluta dags og hafði drenginn sinn hjá sér, því að hún vildi helst aldrei þurfa að skilja hann við sig né af honum sjá. Hann var allt hennar ljós og líf". „Var það hann, þessi maður?" „Já, annað barn átti hún ekki. Hann var mesta fjörbarn, vildi alltaf aðhafast eitthvað, og nú þarna uppi í fjallinu vildi hann klífa í klettabelti, komst í ógöngur og kallar á móður sína sér til hjálpar — hún sat þarna á þúfu prjónandi. Hún stendur upp og gengur að klettastallinum, þar sem drengurinn stóð og lyfti honum ofan, en hún stóð á völtum steini og féll við um leið og hún setti hann niður og rak niður höndina svo illa, að þumalfingurinn hjóst og marðist, því að holurð var undir. Hún varð að fara til læknis, og endirinn varð sá, að hún missti fingurinn". ,;Hvernig fór hún þá með drenginn sinn, þegar hún gat ekki unnið? - - - En faðirinn. Hver var hann, eða var hún ekki ógift?" „Jú, hún giftist aldrei. Faðirinn var nú eiginlega enginn". „Enginn. Hvernig þá?" „Hún nefndi aldrei neinn föður að honum". „Eru ekki allar mæður skyldugar til að segja til faðernis barna sinna?" „Það held ég, að svo eigi það að vera, en hún var ófáanleg til þess, hvernig sem hún var um það spurð. Sagðist eiga hann ein, og að engan varðaði um faðernið. Það gekk á einlægum skriftum um það fram og aftur milli prests, prófasts og biskups, en ekki var það komið í kring, þegar hún missti rænuna".

,.Hvað var hún þá að fara?" „Hún var á heimleið, fór eiginlega síðast frá mínu heimili Hún kom með drenginn sinn til okkar, mannsins míns sáluga, hún ætlaði að segja hreppsnefndinni til hans og bað okkur fyrir hann, þangað til honum yrði ráðstafað, og svo var hún á heimleið, þangað sem hún var vistráðin þetta ár, sem hún slasaðist um vorið, því að húsbændur hennar afsögðu barnið hennar um haustið, en hún átti að vera þar sjálf kyrr yfir veturinn. Hún átti yfir fjallgarð að fara, skamma leið þó, en var illa til reika, auminginn, og hefur líklega verið úrvinda og utan við sig út úr hag sínum og öllum þeim bágindum, og þess vegna villst eða ráfað í villu, því að veður þótti vel fært, en fór versnandi með kvöldinu og var stórum verra næsta dag. En ekki var hennar saknað né að henni leitað fyrr en eftir tvo sólarhringa. Og fannst hún þá í fönn undir steini, svona á sig komin, en því sem næst ósködduð af frosti, því að dimmviður var á, með litlu frosti. Ég man það glöggt, ég vildi ómögulega, að hún færi þann dag, en það héldu henni engin bönd. „Er maðurinn þessi alinn upp á sveit?" „Ónei, við tókum aldrei neitt með honum". „Ólst hann upp hjá ykkur?" „Hann var hjá okkur, þangað til hann var fermdur, þá fór hann í skóla suður". „Nú, svo að þið hjón óluð hann að mestu upp og kostuðuð hann svo í skóla?" „Nei, við kostuðum hann ekki. Okkur vantaði oftast „afl þeirra hluta sem gera skal", féð nefnilega, en maðurinn minn gekkst fyrir því, að nokkrir góðir bændur kostuðu hann í félagi, því að það var auðsæilegt, að efni var í drengnum, þó að óhneigður væri hann fremur til vinnu. Og svona hefur hann kóklast áfram fyrir staka ástundun og góðra manna tilstyrk. Og er nú orðið þetta úr umkomulausa drengnum hennar Gustuka-Geirlaugar". „Hvers son er hann skrifaður?" „Hann var skrifaður Hansson í kirkjubækurnar, og ég trúi, að hann sé nefndur svo alls staðar. Geirlaugar-Reynir var hann venjulega kallaður fyrir norðan". „Var ekki neitt getið til, eða vitað um faðernið?" „Eitthvað var verið að geta sér til, bæði rétt og ekki rétt, en fáir eða engir vissu það sanna nema ég". „Svo að þú veist alla þá sögu með sannindum. Viltu ómögulega segja mér allt, sem þú veist um móður hans? Mig langar svo mikið til að vita, hvernig maður þessi er tilkominn. Mér líst svo framúrskarandi einkennilega vel á manninn. Mig langar til að vera - - - móðir hans". „Ég hef engum manni sagt sögu hennar, því að hún trúði mér fyrir því, sem fáir eða engir tala um við aðra. Hún var svo hreinskilin og sönn, einlæg eins og barn, að það hefði verið stórsynd að vera henni ótrú. En nú er þetta allt gamalt og gleymt, og hún komin burt frá bágindum sínum, því að bágt átti hún, þó að sjálfri sér mætti um kenna, allténd með sumt. Hún hafði svo margar undarlegar skoðanir á hlutunum, að það var engin von, að henni blessaðist sá hugsunarháttur, þó að engum vildi hún mein gera. Það vildi hún ekki. - - - En ég get ekki sagt þér neitt meira um þetta núna, en ef að þig langar til að heyra sögu hennar, þá máttu koma til mín eitthvert kvöldið í rökkrinu. Við skulum þá minnast á hana, sem að enginn man eða minntist á nú".

„Segðu mér einungis eitt. Skeytti maður þessi ekkert um móður sína, þegar hann vitkaðist?" ,.Hann var fjögurra ára barn, þegar hún fór svona, og það var aldrei á hana minnst við hann, fyrr en hann var kominn til vits. Þá sögðum við honum frá móður hans, hvar hún væri, og að hún væri veik". „Skeytti hann þá ekkert um hana, að vilja sjá hana þó að - - - ?" „Jú, jú, hann bað okkur einu sinni um að lofa sér að fara þangað, sem að hún hélt til, svo að maðurinn minn fór þangað með honum, en það varð ekki drengnum til annars en angurs. Hún mundi ekkert eftir umliðna tímanum, eftir það að hún varð svona, gleymdi alveg barninu sínu, sem hún elskaði þó næstum yfirdrifið, gleymdi öllu, og þeim báðum þá líka - - -" „Þeim báðum — hverjum?" „Nú drengnum sínum og föður hans — ". „Elskaði hún - - - " ,,Góða nótt, og komdu þá annað kvöld, ef þú vilt". „Góða nótt, ég kem áreiðanlega, frænka". Mér varð ekki svefnsamt þá nótt. Hugsanirnar um yndislega manninn unga, með snillingsglampann í gráu augunum og þunglyndiskeiminn í djarfmannlega, sigurglaða svipnum, ásóttu mig andvaka, og svo hún móðir hans. - - - Að hugsa sér, að hann hallaði sér ofan að manni og segði: mamma mín. Mér var sem að ég sæi munninn á honum með nautnaþorstann á neðri vörinni, og svo rómurinn. - - - Þetta ásótti mig. Ég sofnaði þó loks og vaknaði aftur án þess að eiga hann, eyddi deginum til óþarfa og flýtti mér svo strax, þegar skyggja tók til frænku, til að fá meira að heyra. Hún sat ljóslaus með prjónana sína og var ein. Það þótti mér best, og ég stórhlakkaði til, eins og ég hlakka til að liggja lesandi í rúmi mínu á kvöldin, þegar ég hef eitthvað gott að lesa. „Ég er búin að taka hér upp bréfin, sem að hún skrifaði mér", byrjaði frænka. „Það er best, að þú sjáir þau eins og þau eru, fyrst að ég annars er að bulla um það allt saman, sem ekki ætti þó að vera. Þú mátt ekki láta neitt á þessu bera, meðan Reynir lifir. Hann fer nú að vísu af landi burt aftur strax í haust". „Fer hann?" „Já, hann er ráðinn sem einsöngvari suður á Þjóðverjalandi, þar er honum boðið feikna hátt kaup. Hér hefur hann ekkert að lifa af sem söngmaður. Hann gerir ráð fyrir að dvelja hér í sumar, svo fer hann í burtu aftur". „Nú, fer hann", og mér fannst eins og ég missa einhvers í við það. „Það var leiðinlegt, að föðurlandið hans skyldi ekki fá að njóta hans - - - ". „Föðurlandið", og frænka hló við. „Hann á líklega föðurland eins og aðrir, þótt engan ætti hann föðurinn. Þeir voru að dýrðast yfir því í gærkveldi, heyrði ég var, hvílíkur sómi föðurlandinu væri að svona syni. En þegar móðir hans gekk með hann og ól hann, þá var lítið um aðdáun á henni fyrir þetta tiltæki hennar að framleiða barn utan hjónabandshelginnar, ég man svo langt".

,,Æi, byrjaðu nú, hvernig kynntist þú henni?" „Hún var vinnukona mín í fjögur ár, eða þó eiginlega fimm. Ég léði hana vinkonu minni síðasta veturinn, sem hún var vistráðin hjá mér, og þá kom þetta fyrir hana". „Hvar var það?" „"Ég léði hana í vetrarvist til sýslumannshjónanna á Máfaklöpp. Þú hefur sjálfsagt heyrt þeirra getið. Það er dálítið þorp þarna nálægt, þar sem við vorum. Svo sem 3 - 4 tíma hægur gangur frá Bjargi út í kauptúnið. Þegar hún kom þaðan um vorið, þá var sú stórbreyting orðin á hag hennar, að hún gekk með barni". „Lenti hún í lausaglopruskap þar í þorpinu?" „Nei, nei. Ekki eins og gerist, það var nú ekki hætt við því með hana, þó að það geti alltaf hent, og það jafnvel myndarstúlkur, sem maður síst hyggur. Hún talaði oft um hag giftu kvennanna við mig, og var óánægð með kjör bóndakonunnar yfirleitt, annað þekkti hún ekki, og aldrei sagðist hún gefa sig undir yfirráð nokkurs karlmanns, verða ómyndug, engu lagalega ráðandi, og þar fram eftir götunum. Að minnsta kosti sagðist hún vilja ráða yfir sjálfri sér, ábyrgjast athafnir sínar sjálf, og ekki vera með allt upp á einhvern annan komin og eiga svo að lúta hans vilja. Sjálfstæð vildi hún vera, og það var hún, en það var annað, sem steypti henni, ef það orð á við hér. Hún var oft búin að segjast ætla að eiga barn ógift, eiga það ein, annast það og ábyrgjast upp á eigin spýtur, en í félagsskap við mann vildi hún ekki vera, hvorki með barn sitt né annað. Vertu ekki að þessu bulli, Lauga mín, sagði ég einhverju sinni við hana. Með hverjum viltu svo sem fara að eiga barn, þegar þú vilt ekkert annars hafa með þann mann að gera? Að eiga barn með manni, sem maður ekki ann, er andstyggð, en ef að þú annt honum, heldur þú þá ekki, að þú mundir vilja giftast honum líka?" ,,Ég þarf ekkert að unna manninum, ekkert annað en hafa gott geð á honum og gott álit, svo að drengurinn minn — því drengur á það að vera, stúlkunum eru flestar bjargir bannaðar, nema það að vera þjónar og þurrkur annarra —". „Uss, uss. Ég vil ekki svona tal í mínum bæ", sagði ég alvarlega. Mér fannst tal og hugsunarháttur Laugu minnar meiri fjarstæða þá en seinna. Hún sagði oft ýmislegt þessu líkt, og var full alvara, eins og sýndi sig. Hún skrifaði mér nokkur bréf þennan umgetna vetur, og á þeim getur þú nokkuð séð, hvernig þetta kom fyrir hana, þetta, að hún eftirlét okkur hinum ágæta barnið sitt, þó að hún nyti þess skamma stund sjálf, auminginn. Hérna er fyrsta bréfið. Þú getur kveikt þarna fyrir mig á kertisstúfnum, á meðan þú lest, og svo slökkvum við og verðum í myrkrinu með það sem eftir er". Ég gerði sem hún vildi og las.

Máfaklöpp 2. nóv. 1863.

Elskaða húsmóðir, maddama Sigurbjörg. Mig langar til að segja yður allt, sem mér býr í brjósti, eins og ég er vön, þótt lengra sé nú á milli okkar en var. Ég þarf engan annan og vil engan annan, mér leiðist hér í þorpinu og langar í sveitina mína og þó mest til yðar. Ekki er það öðrum að kenna en sjálfri mér, en mér finnst allt öðruvísi nú, en ég vandist áður og kann við engan og ekkert, þótt enginn geri á

hluta minn hér. Mest ergir það mig, að sjá sérgóða andlitið á þessum syni hjónanna, Grími, ritstjóranum. Ekki er það af því, að maðurinn sé ljótur eða leiðinlegur, nei, en hann er allt öðruvísi en allir aðrir, sem ég hef þekkt, alveg óskiljanlegur. Þegar ég sá hann fyrst, þá stakk mig eitthvað, eitthvað, sem ég get ekki lýst. Ég hrökk ósjálfrátt ofurlítið afturábak, þegar hann kom inn úr dyrunum, og þó er hitt mér enn meiri ráðgáta, það var eins og ég kannaðist við manninn frá fornu fari, hefði einhvern tíma haft eitthvað saman við hann að sælda, eitthvað náið fyrir ómunalöngu síðan, við manninn, sem ég hafði aldrei séð fyrr. Hvað finnst yður? Þetta hvarf aftur strax, en þó er eins og mér standi beygur af manninum, óljós beygur, og þó gefur hann mér enga ástæðu til þess að gera mér neinar getsakir um hann. Og ekki þurfið þér að halda, maddama góð, að mér sé í þann veginn að lítast vel á hann, hann er nú oflangt fyrir ofan mig til þess, og svo er von á konuefninu hans í vor, hún er í Kaupmannahöfn í vetur, en hann fór heim til að sinna þessu blaði sínu, svo á að smella á þau hjónabandinu eins og annað gott fólk. Ekki meira núna. Kveðja til allra og þökk fyrir það, að þér létuð kenna mér að skrifa, og þökk fyrir allt, sem þér hafið fyrir mig gert.

Yðar Geirlaug

Máfaklöpp 18. des. 1863. Elsku húsmóðir mín. Ennþá er ég komin til yðar rétt sem snöggvast, má nú ekki skrifa mikið, því að nóg er annríkið, og mikið á hér um að vera um jólin. Ekki þó eins og í sveitinni minni blessaðri, þar sem allt fólkið þvær sér í rökkrinu og fer í sparifötin sín, og svo þegar búið er að kveikja ljós um allan bæinn, í hverju skoti og hverjum krók nema fjósinu — þá kemur húsmóðirin loks inn — seinast allra, því ævinlega á hún verst — þvær sér líka og fer svo fram til að skammta brauðið með kaffinu fólksins, mikil hrúga handa hverjum. Síðan kemur hún aftur inn með jólakertin, sitt kertið handa hverjum á heimilinu, ungum og gömlum, og allir kyssa hana fyrir, smáir og stórir, ungir og gamlir — verst að þurfa að kyssa karlana ljóta og loðna, en þetta eru kjör konunnar og annað verra. Svo kuma krakkarnir með ys og þys og rétta fram sálmabókina með jólasveinunum í röðum milli blaðanna, og standa endarnir á miðunum út úr, rétt svo að maður geti klipið í og dregið að sér það, sem guð og gæfan ætlar manni af því tæi. Svo setjast allir með andakt að húslestri og söng, sitja svo eða ráfa, þangað til farið er í fjós, og eftir það er kvöldmaturinn borinn inn, ekki mjög magurleitur né ljótur. Allt það besta, sem til er í búrinu, magáll, bringukollur, bjúgu, lundabaggi að ógleymdu laufabrauðinu, sem allir á heimilinu þreyttu kapp um að flúra sem fagurlegast, og sést þar hámark hagleiks og hugvits heimilismanna. Þetta er svo skoðað vandlega, og ofurlítið bragðað á hverju einu, sett síðan afsíðis og geymt seinni tímanum. Loks kemur inn kaffi með lummum, alhvítum

af sykri, menn vappa fram og aftur eða dunda við eitt og annað, sem engin vinna var þó í, og fara síðan í rúmin nokkru seinna en vant er, og eiga í fórum sínum bæði kertin og úrvalsmatinn, að mestu óétinn, og hver sofnar svo sæll með sinn hag. Ósköp eru á mér að eyða svona tímanum. Ætlaði aðeins að bjóða ykkur öllum gleðileg jól, því að lítil verða mín. Líklega helst að stjana við gesti og hirða um ofnana og því um líkt. En ekki er betra að vera iðjulaus, þar sem maður unir sér ekki. Þetta er víst alltsaman bull, sem ég var að skrifa yður um ritstjórann. Hann er geðfelldur og viðkunnanlegur maður, sem kemur fallega fram við alla. Ég hef fremur gott geð á honum, og mér er heldur vel við hann en hitt. Verið þið öll sæl heima.

Yðar Geirlaug „Hún skrifar heldur greindarlega", sagði ég upp úr lestrinum. „Var hún nokkuð vel að sér?" „Ekki gat það nú heitið, en hún var að flestu vel gefin, sem fólk svo kallar". „Var hún af góðu fólki komin?" „Svona eins og gengur og gerist líklega. Það var nú verið að dylgja með, að hún hefði verið laundóttir séra Sigurgeirs á Reykjum, og var hún þá vel í ætt komin, það sem til hans náði. Hann var snillingur að sér, maðurinn sá, þótt áfátt kunni nokkuð að hafa verið með hann, eins og okkur öll, og ekki síst þá, sem eru framar öðrum að einhverju. Hún var kölluð Tómasdóttir, sá maður var dáinn áður en hún fæddist, svo var ekkert um það sýslað. Móðir hennar dó, þegar Geirlaug fæddist, en móðursystir hennar ól hana upp".

Máfaklöpp á þorraþrœl 1864. Elsku húsmóðir mín. Af því að nú er afmælið mitt, þá ætla ég að lofa mér að tala við yður, svo að ég eigi gott ofurlitla stund. Nú er ég 24 ára, komin á giftingaraldur, eins og komist er að orði um kvenfólkið, svo sem eins það væri eina ákvörðunin, eina markmið lífsins. Við séum til þess til orðnar, og nú sé um að gera að grípa rétta aldurstakmarkið og láta þær ekki leika lausum hala lengur. Nei, binda þær, binda þær um aldur og ævi. Hvað þessi hugsun gerir mig æva. Verið þér nú ekki vondar við mig. Vondar, nei, þér eruð aldrei vondar við mig, viljið mér allt hið besta ævinlega, en ég vil ekki vera bundin, þoli ekki að vera háð, og því hrindi ég öllum þeim böndum frá mér, sem á mig ætla að setjast. Þér vitið, hvað ég á við. Ég hef það eins og ég var að ráðgera, að eiga barnið mitt ein og vinna ein fyrir því. Finnst að lífið vera auðn án þess að hafa eitthvað að elska og lifa fyrir, en án ábyrgðar og umráða á mér og mínu verði ég aldrei að manni. Nú farið þér að verða óánægðar við mig, svo að ég fer ekki lengra út í þá sálma, en kveð yður með þökk og elsku, einu manneskjuna, sem ég finn, að gerir sér annt um mig án eigingirni. Verið þér blessaðar alla tíð Yðar Geirlaug.

ES. Aldrei giftist ég þessum Jóhanni, þótt allir telji mér það happ. Mig langar lítið til að sjá andlitið á honum margendurtekið á börnunum mínum, það væri kvöl, óþolandi sjón. Ég verð að velja gott faðerni - - -.

Verið þér blessaðar.

Máfaklöpp á síðasta vetrardag 1864. Blessaða húsmóðir mín. Aldrei megið þér sleppa af mér hendinni, þótt allir aðrir geri það. Ég þarf endilega að eiga tal við yður bráðlega, svo að ég ætla að biðja sýslumannsfrúna um að fá að skjótast til yðar um helgina. Ég reyni að fá stúlku í staðinn minn. Ég má enga stund vera að heiman, verð alltaf að passa þessa ofna, annars drepst allt saman. Finnst yður, maddama Sigurbjörg, að það geti með nokkru móti verið minnkun fyrir nokkurn kvenmann að langa til að verða móðir að nýtum manni, eða nokkuð ljótt í því? Verið þér ávallt blessaðar, maddama góð, og verið þér nú góðar við mig þegar ég kem, því að nú þarf ég góðsemi yðar, en glöð og ánægð er ég þó eiginlega. Verið þér sælar, maddama Sigurbjörg.

Yðar Geirlaug. ,.Slökktu nú ljósið", sagði frænka. „Við skulum vera í rökkrinu með það sem eftir er". Ég slökkti og færði mig yfir um til hennar og bjóst til að hlýða á frásögnina. Við þögðum báðar, ég beið og hallaði mér upp að í legubekknum, en ekkert kom. „Nú frænka, kom hún svo?" „Já, hún kom um háttatíma á sunnudagskvöldið. Mér vildi það til, að maðurinn minn var ókominn heim frá kirkjunni. Hann hafði verið beðinn að skíra barn og var ekki væntanlegur heim um kveldið. Stúlkur voru fáar heima, börnin sum sofnuð, en þau eldri úti við og fátt um. Hún kom svo hljóðlega inn í húsið mitt, að ég varð hennar ekki vör, fyrr en hún lét hurðina aftur á eftir sér. Mér fannst strax eins og ég sjá, að eitthvað var um að vera. Hún var næstum öll eins og ofurlítið breytt, en hún brosti hlýtt og glaðlega, þegar hún heilsaði mér. „Nú þarna ertu þá komin, Lauga mín. Máttu ekki vera í nótt?" „Jú, ég útvegaði stúlku í staðinn minn, þangað til um hádegi á morgun, þá verð ég að vera komin úteftir". „Jæja, fáðu þér eitthvað að borða frammi, ég fer að hátta, þú getur sofið hérna í litla rúminu við fótagaflinn minn, telpan sefur hjá stúlkunum. Maðurinn minn er ekki væntanlegur heim í kvöld. Það er best, að þú sért hérna inni í húsinu mínu þessa nótt, ef að þú hefur eitthvað að segja einslega við mig. Hún roðnaði ögn og þakkaði fyrir sig. Ég fór að hátta, svo kom hún inn litlu síðar og háttaði í litla rúmið og lét ekkert erindi uppi. Mig hálffurðaði á því, að hún skyldi ekkert segja, en fór þó að sofa — vildi ekki segja neitt að fyrra bragði. Ég vaknaði svo við það,

að hún sat hálfklædd á rúmstokknum mínum og brosti ráðaleysislega. Það var orðið skuggsýnt, nærri dimmt. „Má ég nú segja yður erindið?" sagði hún lágt og leit ekki á mig. „Ó já, Lauga mín, segðu mér allt, sem að þú vilt segja". „Ég vil segja yður allt, ég þarf hluttekningu, mér finnst þetta næstum of mikið fyrir mig eina. Ég - - - á nú von á að verða móðir". Dálítil þögn. „Líður þér þá illa, Lauga mín?" „Nei, fjarska vel. Mér finnst einhvern veginn að ég vera orðin svo ósegjanlega rík, hugrökk og fullorðin í mér, hafa vaxið, en ég get ekki rúmað, dulið fyrir öllum fagnaðarfyllinguna, sem gagntekur mig. Ég þarf að tala við einhverja manneskju". „En hann, faðirinn, vill hann ekki taka þátt í þessu með þér?" „Nei, ég er honum óviðkomandi, og það á barnið mitt líka að vera, ég á það ein". „Á hann þá ekki að gangast við faðerninu?" „Nei, nei, það gæti hann ekki, þó að ég vildi, en ég vil engan föður að barninu mínu". „Ertu nú enn með það. Betur að þú lentir nú ekki í einhverju baslinu með þetta, Lauga mín, en það situr nú við það sem orðið er". „Ég þoli nokkuð mikið basl núna, maddama Sigurbjörg. Ég finn þróttinn og hugrekkið í mér, hvað sem að höndum ber. Þér vitið ekki, hvað ég þori og þoli nú". Og hún horfði á mig með hugarfestu og því þreki og hugdirfð, sem ég þekkti ekki áður í svip hennar, þótt ávallt vissi hún, hvað hún vildi. „Jæja, það er gott, þér veitir sjálfsagt ekki af því, en þú mátt til að nefna einhvern föður að barni þínu, það verður gengið eftir því". „Mér finnst engan varða um það, ef ég þarf engrar hjálpar að leita til annarra, get annast það að öllu hjálparlaust". „Þér verður nú fullörðugt með það, að vinna ein fyrir barni, þá - - - " „Ég á dálítið, kaupið mitt og 100 krónur, sem hún systir mín sáluga eftirlét mér. Ég verð hagsýn og nægjusöm". „Þú ert líkleg til þess, og ef ekkert fellur uppá fyrir þér, þá getur þú kannski nokkuð bjargast, þú ert svo vel vinnandi. En föður verður barnið að eiga, það sannarðu". „Það er ómögulegt, hann getur ekki gengist við því". „Getur hann ekki, er það í nokkrum meinum?" „Já, það yrði það sjálfsagt kallað". „Já, Lauga mín. Ósköp hefur þér þar yfirsést". ,,Ég veit ekki, og svo mátti ég til". „Máttir þú til?" „Já, ég - - - mér var ómögulegt að láta neinn annan mann á mér snerta, og svo var ég vandlát að faðerninu". Hún þagnaði við. „Er þetta þá einhver afburða maður?"

,,Já". Þögn. „Þykir þér vænt um hann?" ,,Já, núna". ,,En honum um þig?" „Ég veit ekki, líklega lítið". „Er hann giftur?" „Sama sem". „Þú hefðir átt að reyna að gæta þín fyrir giftum manni". Hún brosti ögn og fór að fitla við kögrið á hyrnunni sinni. „Ég þurfti ekki á því að halda, hann reyndi ekkert í mig að ná". „Reyndir þú kannski að koma honum til við þig, því trúi ég ekki". „Ekki reyndi ég neitt að draga hug hans né eftirlanganir að mér á þann hátt, sem tíðkanlegt mun vera, en þetta var eingöngu mér að kenna þó". „Ég skil svo sem ekkert í þessu hjá þér. En þú verður að fá einhvern til að gangast við barninu, ef faðirinn ekki vill eða getur". „Það vil ég hvorki né get. Ég yrði að segja þeim manni hið sanna um faðernið, en ég þori engum að trúa fyrir því nema yður". „Mér finnst maður þessi, hver sem hann er, ætti að taka svo lítinn þátt í ástandi þínu, að útvega föðurnefnu að barni ykkar, þó að hann sjái sér ekki fært að gangast við því sjálfur". „Hann veit, að ég ætlast ekki til neins af honum, hvorki þess né annars". „Hann er nú samt, sýnist mér, búinn að brjóta meira móti skyldunni við konu sína, en þó að hann útvegaði mann til þess að gangast við barninu sínu". „Heyrið þér mér, maddama Sigurbjörg. Teljið þér það meiri sök, að maður eigi barn með öðrum kvenmanni en þeim, sem hann er giftur, heldur en þetta, sem algengt mun vera, og flestum er kunnugt um að fram fer — þótt allir láti sem ekkert sé — þó að ekkert barn sýni þess vott? Ég hef aldrei skilið, að sökin liggi í því, að barn, nýr maður, verður til, því að mér skilst sem að það sé einmitt náttúrlegi tilgangurinn, eða eigi að minnsta kosti að vera það''. ,.Ég veit ekki, Lauga mín, það er flókið mál, sem ég fæst ekki við að dæma í. En það er alltaf sök að svíkja annan, og þó ekki síst sína nánustu". „Og þó enginn viti það og verði því aldrei að óánægju né sundrungarefni?" „Það kemst oftast einhver grunur eða kvis á þau mál, og grunurinn getur oft verið eins örðugur viðfangs, á báðar hliðar, eins og vissan. Og svo þetta, að maður er alltaf veilari og óprúttnari, þegar manni er einu sinni búið að verða á, maður er neyddur til að vera ósannur, og með einu orði: allt þess háttar hlýtur að skemma hvern og einn meira eða minna. En sleppum því tali". - - - „Já, en mér finnst ekki sök, ekki skemmandi neinn eða neitt að vilja eiga barn". „Tölum þá ekki meira um það, en ætlaðir þú að segja mér, hver maðurinn er? Þó skaltu ekki gera það, nema ef þér svo sýnist. Þú vilt kannski ekki nefna hann við neinn. og þá - - - ". „Jú, ég ætlaði að segja yður allt. Guð og þér, maddama Sigurbjörg, megið vita það alveg allt, en engir fleiri".

Svo varð þögn. Ég beið. Hún stóð hægt upp, kraup á kné við rúmstokkinn minn og grúfði andlitið ofan í sængina mína, svo að ég sæi ekki framan í hana. „Ég get ekki frá því sagt, hvað lifandi skelfing að mér þykir vænt um manninn síðan að þetta varð. Mér kom það ekki til hugar áður". „Þótti þér ekki vænt um hann áður?" ,.Ekkert þessu líkt. Hafði gott geð á honum og fannst hann bera svo langt, langt af öllum öðrum, sem ég hef þekkt, og svo þetta undarlega, sem ég skil ekkert í, að mér fannst eins og að hann væri mér náið viðkomandi, væri mér handgenginn frá fyrri tíð, svo löngu liðinni tíð, að ég aðeins óljóst grillti í endurminningar í fjarska". „Var þá ekkert milli ykkar annað en þetta?" „Ekkert annað en blátt áfram". „Er það Grímur?" „Já". „Áttu þá ekki bágt að unna honum, og vita, að önnur kona á hann eða á að fá?" „Nei, ekki af því, að ég á hann í barninu hans. Þegar ég sat á rúmstokknum fyrir framan hann, þá var mér engin tilfinning önnur ljós en sú, að nú ætti ég hann og væri hans að eilífu, og með þá sterku tilfinningu læddist ég frá honum, og hún situr kyrr í mér enn". „Eruð þið samt síðan eins og ekkert hafi komið fyrir?" „Það held ég, það ætlast ég til, og ég hef passað að verða aldrei á vegi hans og aldrei ein hjá honum síðan, en ég á bágt með þetta samt, að þurfa að vera þarna það sem eftir er til krossmessunnar". „Því get ég trúað, en heldur þú, að enginn viti eða gruni neitt?" „Ég er viss um alla aðra en móður hans, um hana var ég fyrst hálfhrædd, að hana grunaði, en vissu gat hún enga haft". „Hafðir þú nokkuð saman við hann að sælda, svo að þú ættir erindi þangað, sem hann hélt til?" „Já, ég hirti um herbergin hans og sá um ofninn". „Ég bíð eftir útskýringu á því, hvernig þú komst þessu í kring, fyrst að það varst þú?" „Ég skrifaði fá orð á miða og rétti að honum, þar sem hann sat við skrifborð sitt - - - nei, þó. Ég lagði miðann þegjandi á borðið hjá honum. Svo mun það hafa verið". „Nú". „Ég stóð upp við borðsendann, meðan hann las, en ég var svo óstyrk, að ég varð að styðja hendinni á borðshornið, en hún skalf. Hann leit snöggvast upp og horfði framan í mig en sagði ekkert og fór svo að skrifa aftur. Ég gekk þegjandi burt og svo liðu nokkrir dagar, að ekkert bar á neinu, enda varaðist ég að vitja um ofninn, þegar ég vissi, að hann var þar. Ég gat það ekki, en svo var það einn dag, að móðir hans segir mér, að hann eigi von á, að menn komi til hans í kvöld, og biður mig að sjá um, að allt verði í lagi í skrifstofunni hans og nægur hiti. Ég játti því og fór að vitja um ofninn, því að ég hafði séð hann ganga út skömmu áður, og geng því hiklaust inn. Það var orðið nokkuð skuggsýnt. Ég gekk beint að ofninum, án þesss að líta kringum mig og fór að laga eldinn, þá heyri ég á bak við mig, að hann liggur í legubekknum. Ég læt sem ekkert sé og lít ekki við".

„Hvað var þetta eiginlega, sem þér voruð að segja? heyrði ég á bak við mig. Ég svara ekki. Langar yður til að eignast barn?" „Já". „Það er nú dálítið óvanaleg aðferð þetta, sem þér hafið, en því komuð þér til mín með það?" „Af því að þér eruð eini maðurinn, sem ég hef svo gott geð á, að ég geti - - - ". „Nú jæja, en ég er sama sem giftur maður". „Ég ætla engum manni að giftast". „Hvernig hugsið þér yður þá að hafa það?" „Eignast barn með geðfelldum manni og eiga og annast það ein". „Á það að verða föðurlaust?" „Já". „Og barnsfaðir yðar á engan veg né vanda að hafa af barni yðar?" „Nei, aldrei". „Og það á enginn einu sinni að vita, hver hann er?' „Nei, það læt ég aldrei viljandi vitnast". „Einmitt það, og hann horfði einhvern veginn skrítilega á mig, en ég stóð kyrr með skörunginn í hendinni og horfði út um gluggann. „Þér eruð nokkuð öðruvísi en almennt er, og hugsunarháttur yðar ekki síður", sagði hann og bylti sér við í legubekknum. „Það koma hér bráðum gestir til mín, viljið þér gera svo vel að segja mömmu, að ég biðji um kaffi handa þeim?" „Já", svo fór ég og færði gestunum hans kaffi um kvöldið. Þegar ég gekk út úr stofunni kom hann á eftir mér. „Heyrið þér, segið henni mömmu fyrir mig - - - ", og hann lét hurðina aftur á eftir sér, kom alveg að mér, tók utan um úlnliðinn á mér, laut niður að mér, og segir lágt og þýðlega: „Er yður þetta full alvara?" „Já". „Hafið þér athugað það nógu vel, haldið þér?" „Já, ég vil allt í sölurnar leggja til þess að verða móðir ágæts manns". „Á, það er nú undir því komið nokkuð kannski, - - - kl. 2 þá". Og svo ætlaði hann að fara inn. „Heyrið þér". Hann kom aftur til mín. „Hvað er það svo?" „Ég get ekki nema að - - - ", og nú kom svo mikill óstyrkur á mig, að ég titraði öll. „Nema hvað?" og hann laut niður að mér og studdi hendinni laust á öxlina á mér, en ennishárlokkar hans komu við kinnina á mér, hitastraumur lagði undan hendinni hans um mig alla, og ég skalf. „Nema hvað?" „Að ég viti, að þér hafið gott geð á mér".

„Það hef ég”, og hann greip örsnöggt utan um mig og þrýsti mér upp að sér, og svo var hann kominn inn til gesta sinna, áður en að ég vissi vitund, hvað fram fór, og þar heyrði ég hann hlægja og spjalla við þá, en ég hneig máttvana niður á ferðakistu, sem stóð í ganginum og var að reyna að jafna mig áður en ég kæmi inn til fólksins. Geirlaug grúfði sig ofan í sængina mína og þagði um stund og bærði ekki á sér. Ég beið. Loks byrjaði hún aftur og talar seint og hljóðlega. „Þegar tíminn var kominn hélt ég af stað upp til hans, hiklaust og einbeitt. Hann sefur uppi á lofti, en sýslumannshjónin sofa niðri, og ég sef í lítilli kompu við hliðina á þeirra herbergi. Þar er ég höfð, svo að hægra sé að ná í mig, ef frúin fær astma, henni hættir til að fá andþrengsli síðan hún varð svona feit. Annars eru föt og skófatnaður geymd í kytru þessari. — Þegar ég var komin í efstu rim stigans, heyrðist mér hurð vera opnuð niðri, og sú skelfing greip mig: Ef einhver sér til mín hér, þá verð ég sögð og haldin að vera ótukt, og upp úr stiganum hentist ég í einu vetfangi, inn í herbergið hans, hratt upp hurðinni, sem var ólæst og greip í rúmgaflinn, því að hjartað barðist, svo að ég ætlaði að missa andann og varð máttlaus í fótunum. Hann rumskaðist í rúminu og vaknaði, heyrði að ég var þarna, en ég stóð á öndinni af ótta og hlustaði, hvort nokkur kæmi upp á eftir mér, en enginn kom. Þá kom yfir mig eitthvað, sem eins og aftraði mér, aðvaraði mig við þessu, en ég herti viljann og vildi ekki hika, því að til mikils væri að vinna. Það var ofurlítil glæta í herberginu, svo að ég grillti í hann á hvítum koddanum". „Nú, ertu nú þarna komin," sagði hann lágt og eins og hló ögn við, og mér fannst lítilsvirðing í rómnum, eða eitthvað, sem meiddi mig, svo að ég kenndi til. Þá tók ég eftir því, að hurðin stóð galopin og sneri mér við til að halla henni aftur, þá heyrði ég bak við mig lágt og blíðlega. „Nú, ætlarðu að fara?" og þegar ég kom aftur sá ég, að hann lá þar með útbreiddan faðminn móti mér. Ég fleygði mér í hann, en fann enga sælu, enga ástúð, sem nærri má geta - - - . Þegar ég ætlaði að fara að læðast út úr herberginu og ofan, var eitthvert vímurænuleysi yfir mér, svo að ég settist á rúmstokkinn, fangin af einhverri óskýrri tilfinningu, sem ég ekki get lýst, og þar húkti ég ögn og hélt utan um höfuðið. Þá heyrðist eitthvert þrusk niðri. Hann kipptist snögglega við og sagði: „Blessuð farðu nú að komast ofan". „Já, nú fer ég strax". „Já, en því situr þú þarna, mér ríður mikið á, að þú sért nú varkár". „Ég verð varkár, skal verja þig af öllu viti mínu, og enginn steinn skal falla á götu þína frá mér", sagði ég og stóð hægt upp. „Mér ríður mikið á, að enginn viti þetta eða gruni, og farðu nú". - - - Og þá heyrðist skröllt aftur niðri. ,,Blessuð flýttu þér nú, kannski mamma sé að gæta að, hvort þú sért í rúminu". „Ef ég er þar ekki, þá hefur mér bara orðið illt og farið út í eldhús, og þaðan kem ég, og vertu svo ávallt sæll", og ég rétti honum höndina. „Ætlarðu ekki að kyssa mig?"

„Nei, taktu í höndina á mér, og svo skal ég fara'". „Vertu þá sæl og farðu varlega, mér ríður á því". Og svo tók hann í höndina á mér hlýtt og mjúkt, ekki með venjulegu handtaki, en lagði þumalfingurna hvorn á annars greip og hönd utan um hönd. Ég rak fótinn í skóinn hans, svo að talsvert heyrðist til. Þá segir hann ergilegur: „Þarna er nú varfærnin þín, ég hef einhver óþægindi af þessu", og með það bylti hann sér upp í horn og stundi við. Ég læddist ofan stigann svo hægt, að ég heyrði ekki til sjálfrar mín, en hratt eldhúshurðinni upp og læsti henni um leið og ég fór inn og gerði þrusk um leið og ég fór inn í kytruna mína. Samstundis og ég skellti eldhúshurðinni, skellti hann herbergishurðinni sinni í lás, svo að eigi mátti aðgreina hljóðið, og þar með vorum við aftur skilin. Um morguninn fannst mér frúin horfa meira og öðruvísi á mig en vant var, en ég var viss um, að ég var eins og ekkert hefði í skorist". „Hafið þið þá ekkert orð talað einslega síðan?" „Nei, við vörumst það bæði". „Veit hann þá ekki um ástand þitt?" „Það held ég ekki". „Ætlarðu ekki að láta hann vita um það, áður en þú ferð þaðan?" „Hann þarf ekkert, og á ekkert um það að vita - aldrei". „Já, skárra er það nú. En hvað verður um þig á krossmessunni, fyrst þú neitar að vera hér lengur?" Þá fyrst leit hún upp á mig og sagði: „Mig langar til að vera hér. Það væri kannski munur fyrir mig að vera í yðar blessuðu höndum með það, sem fyrir mér liggur, en í köldum höndum ókunnugra, en ég þori ekki að vera svona nærri, ég ætla að reyna að sjá hann ekki, helst aldrei, þegar ég er farin þaðan, og svo held ég minna beri á högum mínum, ef ég er meira afsíðis. Ég er búin að biðja hjónin í Hvítabæ að ljá mér húsmennsku næsta ár, þar er svo afskekkt og fáferðugt, að það má heita, að enginn maður komi í þá dalsmugu. Kristín er fermingarsystir mín, og erum við alltaf dálítið kunnugar síðan. Hún var heldur almennileg kona, og hún verður mér væn. Þar verð ég, meðan það mesta ríður af. En ég vona samt, að þér sleppið ekki alveg af mér hendinni. Og hún horfði á mig tárfullum augum, einbeitt og sterk, en þó barnslega mjúkt og hlýtt. Ég strauk hárið frá enninu á henni og mælti: „Nei, ég ætla ekki að sleppa hendi af þér, Lauga mín, mér er talsvert annt um þig, en get þó svo lítið efnalega fyrir nokkurn gert eins og þú veist. „Efnalega. Ég vil enga efnalega hjálp frá neinum. Ég fer í vinnumennsku með barnið mitt, nema rétt meðan það er á höndunum, og svo kókla ég því á legg ein. Einungis að það yrði nú drengur og - - - líktist honum", og hún brosti með öllum björtustu móðurvonunum á unga andlitinu, veslingurinn. „Það er gott, að framtíðin er manni hulin", sagði frænka og andvarpaði. „Fór hún svo í þetta kot".

„Já, hún fór þangað og var þar, þangað til hún slasaðist eða missti rænuna. Hún kom hér og gisti, þegar hún var að fara þangað, og mátti ekki seinna vera, að hún færi afsíðis, því að þá var farið að sjá á vexti hennar, ef vel var aðgætt". „Sagði hún þér ekkert þá?" „Ég spurði hana, hvort þau hefðu ekkert talast við". „Nei, það er vika síðan hann fór af stað til útlanda, ætlaði þangað meðal annars til að sækja heitmey sína". „Kvaddi hann þig ekki?" „Nei, ég fannst hvergi, þegar hann var að fara. Ég faldi mig uppi á háalofti. Ég var búin að kveðja hann á mína vísu". „Hvernig þá það?" „Um kveldið sama daginn, sem hann fór, var hann að gróðursetja reyniviðarhríslu, sem hann fékk með skipinu, sem hann fór með, úti fyrir glugganum á skrifstofunni sinni. Þetta vissi ég og skaust inn í skrifstofuna og út að glugganum, til þess að taka af honum síðustu myndina, til þess að eiga og geyma innst í sál minni alla ævi. Hann kraup á annað hnéð, hélt annarri hendinni utan um ungu trjáplöntuna, en þjappaði moldinni að rótum hennar með hinni, glaðlegur og góður á svip, og gætti þess vandlega, að hún stæði alveg bein og yrði lýtalaus, stóð svo hægt upp og leit upp í gluggann. Og þar stóð ég, og fann að ég roðnaði, því að hann yfirfór mig alla, eins og skoðaði mig hátt og lágt allra snöggvast, og brosti svo ofurlítið. Ég brosti á móti, og við horfðumst augnablik í augu. Ég hneigði mig ofurlítið eins og í kveðjuskyni, hann lyfti hattinum, og ég hljóp burt, út í eldhús, með heitan straum sælu og saknaðar í hjartanu, og nú vil ég helst ekki sjá hann aftur og líklega verður það aldrei". „Sá hún hann þá aldrei aftur?" spurði ég frænku. „Jú, jú, þegar í nauðirnar rak fyrir henni, og hún kom hér með drenginn sinn, til þess að segja hreppsnefndinni til hans, þá kom ég henni til þess að láta föður barnsins fyrst vita, hvernig ástatt væri. Mér fannst órétt, að hann væri dulinn þess, að barnið hans yrði látið alast upp á sveit, þótt aldrei nema hún fullyrti, að engin föðurskylda hvíldi á honum með þetta barn. Hún ráfaði svo nauðug úteftir um kveldið sér og öðrum til ógæfu, og var ég óviljandi orsök þess". „Hvað gerðist þá?" „Það gerðist fátt, en það fór þó alveg með hana, hún tók svo skelfing nærri sér að þurfa nú að skilja sig við drenginn sinn, sem von var, og þó tók hún held ég enn nær sér að gera að orðum mínum með þetta að fara úteftir. Hún bað mig að loka ekki bænurn en lofa sér að komast inn, þegar hún kæmi aftur, þótt seint yrði, því að Bjargi kæmi hún endilega um kveldið. Ég gerði eins og hún bað mig, og seinnipart nætur heyrði ég hana loks koma og hátta hljóðlega. Um morguninn kom hún inn í búr til mín og hnykkti mér við að sjá framan í hana, hún gat eins og ekki gengið upprétt, og útlitið var svo dautt og ráfandi, en hún svaraði almennilega og sagðist vilja komast strax af stað, áður en drengurinn vaknaði, hún mundi verða lengi á leiðinni, því að hún þyrfti að taka á sig krók til hreppsnefndaroddvitans. Ég bað hana þá að borða í búrinu hjá mér, en hún sagðist ekkert geta borðað, en ofurlitlu af mjólk neyddi ég ofan í hana. Ég hætti að skammta fólkinu, en sagði henni að koma með mér fram á

stofuloft. Hún kom þegjandi fram með mér, og við settumst á kistu. Ég tók báðar hendurnar á henni og bað hana að segja mér, hvað fyrir hefði komið. „Ég vildi ekki koma úteftir fyrr en um háttatíma og slæptist á leiðinni. Ég var að hugsa um að ná tali af honum, svo enginn vissi, hélt að það yrði honum síst að vandræðum, og líka vildi ég helst mín vegna komast hjá því að sjá konuna hans. Ég vissi, að hann átti enn heima í húsi föður síns og vonaði, að hann hefði skrifstofuna sömu, og að hann mundi ennþá sitja fram á nætur við skriftir eins og hann var oft vanur, og reyndist þetta allt eins og ég ímyndaði mér. Ég gekk hægt heim að húsinu og varð einskis vör, allt var hljótt, og ekkert lifandi líf lét til sín heyra. Ljós var í skrifstofunni hans en ekki annars staðar á þeirri hlið hússsins, ég fór að verða vongóð, að þetta ætlaði allt að heppnast vonum framar, ekki síst þegar ég sá hvar hann sat við skrifborðið sitt inni í glaðaljósbirtunni, því að tjald var ekki niðurdregið fyrir glugganum. Ég stóð við og horfði á höfuðið, vangann á honum — ég sá ekki nema niður á öxlina, ég stóð svo lágt. Þarna sat hann þá ennþá, sællegur og fagur, hreinn og vel til fara í góðu stofunni sinni, en ég varð að láta elsku drenginn minn fara munaðarlausan á sveitina. Guð minn góður, sá munur. Hefði ég verið gift ærlegum manni, sem annaðist mig og barnið mitt af fúsum vilja. - - - Nei, aldrei að selja sig af svartri eigingirni, eingöngu af þörf á hjálp hans, af ástlausri eigingirni, og svo að láta einhvern lubbann snerta sig, hafa lagalegan rétt yfir sér, andlega og líkamlega. - - - Það væri andstyggð, ómögulegt, hvað sem að þrengdi. Gott ætti kona þessa manns. Mikið lifandi skelfing hlyti hún að vera sæl í sólarbirtunni þeirri, að vita sig eina eiga ást hans alla, mega vera hjá honum, hvenær sem hún vildi, vita allt með honum, og taka þátt í öllum hans hugsunum og athöfnum og - - - svo að ganga með börnin hans og - liggja þreytt í mjúkri hvíld í mjallahreinum voðum og horfa þegjandi á föðurgleðina á þessu andliti, fögnuðinn yfir undrinu því að nú væri hann faðir - - - Er ég hreint búin að gleyma mér og kringumstæðunum. Þarna var ég sest óafvitandi á uppgönguþrepið neðsta og hallaði höfðinu að héluðu handriðinu. Ég hrökk við. Nú var að reyna að komast til hans hávaðalaust. Ég var öllu kunnug, hafði oft þvegið þessi þrep og þennan útidyrapall og hreint ætlað að krókna á höndunum. Ég tók hægt á dyrahandfanginu. Það var búið að loka húsinu auðvitað. Þá varð ég að ná í gluggann. Ég stóð yst á pallinum, gat seilst í gluggann og sló hægt á rúðuna. Hann hrökk við, stóð upp og gekk út að glugganum, leit út og sá mig ekki, ég stóð fast við dyrnar. Ég heyri, að hann opnar hægt stofuhurðina og kemur að útidyrahurðinni. Þá fékk ég svo mikinn hjartslátt, að ég ætlaði hreint að hníga niður, þar sem ég stóð í horninu úti við handriðið. Hann opnar hægt og skyggnist út og kemur auga á mig í ljósglætunni frá glugganum, teygir sig ögn lengra út úr dyrunum og starir á mig. „Hvað er þetta, því standið þér þarna, stúlka, í myrkrinu?" og óánægja og undrun var í rómnum. „Þér verðið að lofa mér inn til yðar, ég má til að segja við yður fáein orð", sagði ég svo lágt að varla skildist, og svo smaug ég inn hjá honum og inn að skrifborðinu sama, sem ég stóð hjá

forðum með litla miðann og studdi nú hendinni aftur titrandi á borðið, en nú var það vinstri höndin, þá hægri hafði ég undir sjalinu mínu. Hann kom inn á eftir mér og hallaði lauslega hurðinni aftur á eftir sér og starði á mig, en ég leit ekki upp og sagði ekkert. „Hví í ósköpunum gerið þér þetta, Geirlaug, og það þá um þetta leyti?" sagði hann hægt og alvarlega. „Ég þurfti endilega að láta yður vita - - - og var að reyna að láta engan verða varan við mig - - - ég skal ekki verða lengi - - - ég er að verða úrræðalaus Í því heyrðist þrusk einhvers staðar hinu megin í húsinu eins og af stóli, sem væri færður til. Hann hrökk við. „Fólkið er víst á ferli enn, eitthvað af því, blessuð þér verðið að fara, mér yrði það óbætanleg óþægindi, ef yðar yrði vart hér inni hjá mér og það um þennan tíma. Konan mín hefur víst eitthvað heyrt um það, að barnið yðar ætti að vera líkt mér, og svo heldur hún auðvitað allt mögulegt, eins það sem ekki er". „Ég leit upp og framan í hann og sá, að yfirskeggið hristist, að óstyrkur og ótti var yfir honum, og eins og eitthvert ráðaleysi. Hann hélt á pennahnífnum sínum og skóf neglurnar að framan í ákafa, og sá ég, að óstyrkur var á hendinni. „Ég skal fara", sagði ég lágt með grátstaf í rómnum, en allur óstyrkur var farinn af mér og sneri hægt til dyra. Þá segir hann þýðlega: „Ég skal reyna að lofa yður að tala við mig á morgun niðri í Súmp, — það er veitingakytra þorpsins — komið þér þar klukkan tvö, og berjið þér að fremstu dyrum til vinstri — ég skal reyna, ef mögulegt verður, og blessuð farið þér nú strax, og verið þér sælar". „Ég gekk út úr dyrunum, gat ekkert sagt, því að gráturinn ætlaði að yfirbuga mig, leit ekki einu sinni upp. Í því hann var að láta hurðina aftur á eftir mér var dyrunum á móti lokið upp, og á þrepskildinum stóð há og tíguleg kona með ljós í hendinni og horfði á mig gráum, undrandi, ísköldum spurningaraugum, og fannst mér dramb og fyrirlitning í svipinum. Mér varð bilt, en gætti þess þó að hneigja mig ofurlítið og var að reyna að láta til mín heyra: gott kvöld, og hélt svo leiðar minnar, niður riðin og norður götuna, út í helkalda niðdimma auðnina, burt frá birtunni og hlýjunni, honum þarna inni, sem ég ætlaði aldrei oftar augum að líta í þessu lífi. Allt í einu greip mig sú skelfingar hugsun: Skyldi ég hafa gert þessa konu að verri manni, eyðilagt fyrir þeim allan unað sambúðarinnar. Já, sennilega, ég finn það á mér, veit það fyrir víst. Grunsemin hefur komist inn hjá henni, kvalið hana og kyrkt það hlýjasta og besta í hjarta hennar, gert hana drambsama, ískalda og örðuga sér og honum. Guð minn góður, hjálpaðu mér til að bæta úr þessu, beggja þeirra vegna. Og mér fannst ég gráta þungt og ákaft, en engin komu tárin. Ég stóð upp af götubakkanum, sem ég hafði ósjálfrátt sest niður á. Það er óbætanlegt, óafturkallanlegt, til einskis að ákalla hjálp guðs né manna og þó - - - gæti ég ekki skilað öllu aftur, þó að ég ætti þess kost. Elsku, blessaði, litli drengurinn minn, lífið okkar beggja. Nú verður hann að alast upp á sveit og missa af möguleikanum til þess að geta orðið afburðamaður. Ég ætlaði að ráfa af stað, en gekk næstum móti vilja mínum heim að húsinu aftur, langaði til að vita, hvort ég yrði nokkurs vör - - - og til að sjá gluggann hans einu sinni enn. Gluggatjaldið

var dregið niður, og á það bar skuggann af henni, háan og voldugan, og ég fann að þarna inni fór fram yfirheyrsla og dómur, ég hneig aftur niður á neðsta þrepið, húkti þar hugsunarlaus og sljó, þangað til það vakti mig: Hvað er ég að gera? Þau geta komið út og séð mig, nóg er þó líklega að orðið, og ég ráfa af stað út í myrkrið, heimleiðis". „Vertu ná kyrr hjá okkur hérna í dag, Lauga mín, ég ætla að minnast á drenginn þinn við manninn minn. Kannski að hann vilji reyna að lofa honum að vera hér án meðgjafar, ég ætla að heyra, hvernig hann tekur í það". Hún glápti fram að stigagatinu og gegndi engu. „Lauga mín, heyrirðu það, farðu ekki í dag, ég vil að þú sért kyrr hjá mér. Þá raknar hún eins og við sér og stendur rösklega upp. „Já, maddama Sigurbjörg, þakka yður fyrir allt innilega, meira en ég get sagt - - - ég verð að flýta mér af stað, drengurinn fer að vakna - - - ég er búin að kyssa hann, skilja við hann til fulls - - - ég fer endilega strax, áður en ég heyri til hans, og hún tók áköf að ferðbúast eins og mikið lægi við, og ég gat ekki breytt þeirri ákvörðun hennar, en hún játti því að fara ekki til oddvitans í það sinn, og fór það heldur ekki. Ég sá hana aldrei með rænu aftur". „Er þessi Grímur ritstjóri búsettur hér í Reykjavík núna, mér finnst, að ég hafi eitthvað heyrt hans getið?" „Jú, þau eru flutt hingað fyrir löngu. Hann er hættur við ritstjórn, en er alltaf kenndur við hana. Nú er hann hér maktar- og merkismaður talinn". „Ætli að nokkuð sérlegt sé að með sambúð þeirra hjóna, svo á beri?" „Ja, nei, nei, sem betur fer. Ég hef verið að halda spurnum fyrir um það, af því að ég þekki til um þetta. Mér er sagt, að sambúð þeirra sé hin besta og heimilislíf allt hrein fyrirmynd, tíminn græðir allar undir, enda mun þessu líkt ekki nein sérleg nýlunda í lífi ungra manna, hugsa ég, og það vita þær ofurvel flestar og gera sér að góðu. Þeir eru líklega fæstir yngissveinar, þegar þeir að lokum ganga inn í hjónabandið, þessir blessuðu skólagengnu menn að minnsta kosti, þó að ekkert barnið hrópi upp með það". „Lentir þú í nokkrum þess háttar skapraunum, frænka?" „Ég, nei, það var öðru nær. Maðurinn minn fermdi mig, og 18 ára giftist ég honum fertugum og bar sama óhulta barnstraustið til hans til dauðadags, en svo skemmtilega skrítið er tal og hugsunarháttur fólksins, að sumir gátu þess til, að hann væri líklega faðir Reynis, af því að við tókum hann þetta að okkur, líklega. Það sundraði ekki stórt okkar samlyndi, talið það. Það er alltaf hægra viðfangs, þar sem allt er hreint og opin einlægni á báðar hliðar". „Kemur Reynir ekki til þín núna?" „Drengurinn minn? Jú, jú, hann kemur oft til mín, og er sami glaði drengurinn eins og hann var áður". „Á Grímur börn — þau hjón meina ég?" „Jú, tvö, stúlku um tvítugt og dreng um fermingu". „Hvað heita þau?" „Vilhelmína og Rögnvaldur, en kölluð Helma og Röggvi". „Eru þau myndarleg?" „Já, stúlkan einkum sögð gáfuð og skemmtileg, drengurinn mikið síður". „En heyrðu, sögðuð þið ekki Reyni um faðerni hans og allt það?" „Nei, aldrei einn staf, við höfðum ekkert leyfi til þess, og hann leitaði ekki eftir því nema einu sinni, og sagði ég honum, að ég vissi um uppruna hans, en hefði ekki leyfi til að segja neinum

það. Hann lét það þá niður falla, en ég veit, að hann langar mjög til þess að vita það, þótt hann hafi ekki orð um". „Skyldi Grímur ekki segja honum það áður en hann fer alfarinn af landi burt?" „Mér hefur dottið það í hug, ég tók eftir því, hvernig hann horfði á drenginn í gærkveldi. Hann veit ímynda ég mér hver hann er, þótt hann hafi engan getað spurt". „En að sjá indæla barnsmunninn á honum í gærkveldi, og drengjalegu, látlausu háttsemina hans, hvað hann er yndislegur". „Já, ekki er hann stærilátur eða montinn. Ég tek það svo, að hann sé of stór sálarlega, til þess að vera hrokafullur af því, sem hann fékk fram yfir aðra, honurn sjálfum ósjálfrátt að mestu". „Mér finnst það nærri grátlegt, að móðir hans skyldi ekki fá að lifa það að sjá og heyra drenginn sinn nú ". „Að sjá hann og heyra? Mér finnst sú ódauðleikatrú ónýt, sem ekki trúir á óslitið meðvitundar- og minnissamband milli beggja heimanna, eða hvað maður á að kalla það". „Trúir þú því, frænka, að hún viti um hann og hafi yndi af yfirburðum hans, þar sem hún er nú?" „Því trúi ég fullt og fast", og bætti því við, „að ég víssi það, ef það orð væri meira sannfærandi án rökfærslu". „Hvernig fer þá, þegar frú Bryndís er þangað komin og sér og veit allt saman — ef þeir dánu vita allt, sem þá fýsir að vita í mannheimum?" „Það verður nú mörg Bryndísin áskynja um það, sem hún ekki áður vissi um hag og háttalag í mannheimum, þegar þangað kemur eftir trú og von minni, en ekki er ég hrædd um, að það verði þar þeim sami háski, eins og yrði hjá okkur, ef allt væri ljóst hverjum einum, sem dulið er". „Mér sýnist barnaskapur að vera að reyna að dyljast og breiða yfir allt hver fyrir öðrum fyrir þann, sem trúir alskyggni þeirra, sem dánir eru. Það er bara hlægilegt". „Ekki er ég sammála þér um það. Við breytumst og þroskumst að víðsýni á kærleikssviðinu, eins og mér finnst sjálfsagt, að við gerum að öllum andlegum eiginleikum". „Lifandi skelfing verður hann Reynir þá yndislegur. Ég fer aftur að öfunda hana móður hans, þótt bágt ætti hún". „Hún er engu síður öfundsverð fyrir því, þó að hún ætti bágt, en það er heimska að öfunda nokkurn, og þar að auki er öfund illkynjuð og verður ekki notuð til annars en ills". „Já, nú er ég líka búin að missa alla jarðneska fyrirhyggju, hérna hjá þér, frænka, en gott var kvöldið og hjartans þökk, en góða segðu mér seinna, hvað fram fer með yndislega drenginn þinn, meðan hann dvelur hér. Ég verð að fara heim á morgun. Góða nótt, frænka, og bestu þökk". Um haustið sama fékk ég bréfmiða frá frænku. Þar stóð aðeins: „Kemur þú ekki hingað til okkar í borgina áður en tíð spillist? Ég hef nokkuð að segja þér um Reyni, hann er nú nýfarinn úr landi. Vil ekki skrifa meira, það er allt of óvarlegt. Guð veri með þér. Þín ónýt frænka Sigurbjörg

Tveimur dögum síðar sat ég í legubekknum hjá frænku, í skimunni frá ofninum, í notalegum yl, nýkomin utan úr kuldanum og hálfþreytt af ferðinni. „Fjarskalega er nú gott að koma inn í kyrrlátu vellíðanina þína, frænka, en dragðu mig nú ekki á því, sem ég á að fá". „Grímur er betri og drengilegri maður en ég hélt, og er víst ágætismaður nú, hvort sem meira eða minna kann að hafa orðið að hjá honum fyrr meir - - - ". „Grímur, ég kom ekki til að heyra lof hans eða last, ég vil vita um Reyni". „Það er nú komið samband milli þeirra tveggja, þótt ekki ætti það að verða í byrjuninni. Hann sagði Reyni, að hann væri faðir hans, en mætti því miður ekki kannast við hann opinberlega vegna sinna nánustu, sem hann annars helst hefði kosið". „Nú og var það svo allt og sumt? Sagði Reynir þér?" „Já, hann kom hér inn til mín með asa miklum einu sinni í sumar - ég sat hér eins og oftar - og flaug í fangið á mér eins og þegar hann var lítill, og honum kom einhver óvænt gleði, og segist endilega mega til með að segja mér frá þeim furðufögnuði, sem nú fylli sig allan frá hvirfli til ilja, ég megi til að taka þátt í gleði sinni, hann geti ekkert einn af henni gert, nema þá helst sungið hana inn í þá, sem enga gleði eiga, en nú sé enginn, sem megi heyra þennan sólarsöng sinn nema ég". „Líkt er þetta henni móður hans, hugsaði ég með sjálfri mér, þegar hún var ung og öll í blossa af gleði, sem hún gat ekki rúmað. - Nú líst þér á einhverja jungfrúna hérna, það bregst mér ekki", sagði ég brosandi. „Já, mér líst yndislega á þær allar saman, upp og ofan nokkuð þó, en allra yndislegust er hún systir mín, hún er eins og lifandi fögnuður og fagurt lag". „Og hann greip utan um luralega búkinn á mér og vildi láta mig fara að dansa við sig. „Þú ert ekki með öllum mjalla, drengur, hvaða systur ertu að segja frá?" „Systurinni minni — minni", söng hann og hoppaði um gólfið með mig, sem ómögulegt var að hreyfa. „Mér þykir verst, ef að þú ærir mig með, yndisdrengurinn minn". „Ég á systur, systur, systur, söng hann og snerist um gólfið, og mikið á ég meira, það má enginn heyra". „Sestu nú hérna hjá mér og talaðu af viti, ef þú ætlar eitthvað að segja mér". „Ég ætla að segja það", og um leið hlammaði hann sér niður í kjöltu mína — „að nú á ég föður og móður eins aðrir menn, og þessa mömmu mína gömlu að auki". „Er hann búinn að segja þér - - - ?" „Allt sem ég vildi vita, og segjast mátti, hitt, sem enginn má vita, segir þú mér núna, meðan ég er svona skelfilega glaður". „Nei, ekki núna, Reynir minn, þú átt nú nóg í bráðina, ég bæti kannski einhverju við þig áður en þú ferð, fyrst hann er búinn að opna í hálfa gátt hurðina að leynihólfi því, sem uppruni þinn er inni í dulinn. Komstu heim til hans?" „Já, í dag og sá hana systur mína, og hann spratt á fætur og fór að syngja, en hætti við og settist hjá mér".

„Var það í gærkvöld?" „Já, í gærkvöld um sólarlagið. Ég horfði ýmist í sólina eða inn í augun á honum pabba mínum, á meðan hann sagði mér tíðindin. Heyrir þú það? Inn í augun á honum pabba mínum, manninum, sem ég helst allra manna vildi hafa að rekja uppruna minn til, allra þeirra, sem ég hef séð, mér leist einhvern veginn svo óvenjulega vel á hann, strax þegar ég mætti augunum hans, sem hann festi svo einkennilega á mér, þegar ég söng hérna í fyrsta skiptið. Mér fannst eins og ég kannast við hann, hafa þekkt hann, sem þó ekki getur verið". „Það var merkilegt". „Hvað var merkilegt?" „Ekkert nema þetta allt, segðu mér meira". „Hann talaði margt fallegt við mig, við lágum vestur á túnum langt fram á nótt, og síðast bað hann mig um að koma heim til sín svo oft sem ég vildi, meðan ég væri hér". „Hartn hefði helst viljað hafa mig alveg hjá sér í húsinu, en hann gæti ekki boðið mér það kringumstæðna sinna vegna. Það var yndislegt allt saman, þótt ekkert sé eins og hún systir mín". „Hvernig tók Bryndís þér?" „Fjarska vel, en ekki er hún samt þriðja mamma mín, en hún er mamma hennar systur minnar, svo að hún er afbragð, og tengdamamma mín yrði hún, ef að hún systir mín mætti giftast mér, og ef hún vildi mig og vildi mig", - - - og hann spratt upp syngjandi, rak að mér koss og fór. „Kyssti meyjarmunnurinn þig frænka? Og sá sami munnur kallar þig mömmu, skelfing áttu gott. Er svo ekkert fleira að frétta af veru hans hér?" „Hann söng, og fólkið æpti fagnaðaróp og aðdáun sína að honum, og þeir átu og þeir drukku honum til vegs og viðhafnar, en hann hélt sínu sama látlausa háttalagi og hafði vit á að virða allt þess háttar dálæti þess, sem það er vert, en glaður er hann yfir gáfunni sinni góðu sem eðlilegt er, og hann er kannski ekki orðinn nógu aðgætinn og hygginn ennþá, sem ekki er von. Og frænka þagnaði og varð hugsi. „Það féll nokkur skuggi á ánægju mína af veru hans hér, eftir það að hann var farinn. Góða og gáfaða stúlkan hún systir hans, sem hann var svo hrifinn af, kvað ekki vera mönnum sinnandi síðan hann fór. Hún hefur fengið mikla ást á honum skilst mér, og tekið dálæti hans á henni fyrir annað en það var, sem við var að búast, úr því að hún vissi ekki, hvernig ástatt var, og orðið svo fyrir sárustu vonbrigðum, þegar hann fór án þess að sýna, að hann ætlaði sér annað og meira með hana en aðdáun eina og einhvers konar náið vinfengi". „Þeim hefur þar stórum yfirsést báðum feðgum. Frú Bryndís kvað vera æf, telja að honum hafi farist blátt áfram óærlega við dóttur hennar, en Grímur kvað vera að reyna að mæla honum bót og taka málstað hans, þegar þau hjónin deila um þetta sín á milli". „Hver segir þér þetta, frænka?" „Bogga litla, sem kom með mér að norðan er innistúlka hjá frú Bryndísi. Hún hefur orðið vör við deilur þeirra, en hitt er komið út um allt, að honum hafi farist illa við stúlkuna, því að þau voru alls staðar og ævinlega saman".

„Þetta var nú slæmt, en það var raunar við því að búast, að eitthvað þessu líkt kæmi fyrir, mig furðaði ekki, þó að ég sæi öll meyjarhjörtu í þessari borg hanga blóðug í brjóstum þeirra nú, og öll stjörnuaugun þeirra eiga á hættu að missa skærasta skinið sitt í sorgarmóðunni og saknaðarflóðinu eftir hann og munninn hans óviðjafnanlega, en er svo ekkert eftir?" „Ekki annað en það, að einhverjir framtaksmenn þessarar borgar vildu fara að aura saman til að koma upp minnisvarða yfir hana Geirlaugu sálugu". „Minnisvarða yfir hana Geirlaugu — Geirlaugu móður hans?" „Jú, þeir héldu honum matarhátíð einu sinni sem oftar, og létu þá í ljós við hann, að þeir hefðu í hyggju að sýna honum þakklætisvott sinn og virðingu með því að reisa móður hans minnismerki sæmilegt, konunni, sem hefði alið og eftirlátið landinu annan eins snilling, sem vonandi yrði ódauðlegur. Það hæfði ekki, að sú kona lægi gleymd norður í landi, og enginn þakkarvottur né sómi sýndur minningu hennar". „Hvaða bull er þetta. Eru þeir þá að koma upp þessu minnismerki?" „Nei, hann lét á sér skilja, að sér væri betur að geði, að því fé væri heldur varið til styrktar fátækum, listhæfum manni, og var hellt yfir hann nýrri aðdáun fyrir þau ummæli". Þessi saga var mér sögð á ömurlegu vetrarkvöldi uppi í sveit, og þótti mér matur í þá daga. Nú leyfi ég Kvöldvökunum að koma henni heim til ykkar, sem hafið gaman af að sjá á bak við tjöldin, inn í sálarlíf kvenna.